Veiðistaður

Dags:
 19.08.2013 15:00 - 21.08.2013 13:00
Staðsetning:
 Landmannaafréttur - Hálendið
Veiði:
 Silungsveiði
Lýsing

Seinni Veiðivatnaferð ársins virtist ætla að slá hinni fyrri við. Í fyrri ferðinni var brjálað veður og ég endaði bara með 5 fiska 1-2 pund. Veðrið var miklu skaplegra og strax á fyrsta hálftímanum sá ég fiska stökkva, þar af einn mjög stórann og einn elti hjá mér. En ekkert gerðist fyrsta daginn annað en að ég tapaði nokkrum flugum. Við vorum fimm í þessari ferð og ég sá eini sem var á flugu, hinir voru með spún og maðk. Ekkert gekk hjá þeim heldur. Fyrsta daginn reyndum við Hellavatn (þar sem var mikið líf), Miðvatnið, Skeifuna og svo Litlasjó. Þar sáum við gaur á Subaru landa fínum fisk á flugu. Reyndar veiddi ég einn fisk í Skeifunni, ég krækti í svakalega gróður klessu. Ótrúlega þung miðið við umfang enda rosalega þétt í sér. Ég hef sennilega plægt botninn og veitt allan gróður á stóru svæði en þegar ég var að slíta þetta af fann ég lifandi síli sem fékk frelsi en skráist ekki til bókar ;-) Daginn eftir fórum við í Stóra Hraunvatn þar sem við sáum talsvert líf. Loksins kom fiskur. Ég setti í eins punda urriða í þann mund sem ég var að fara að færa mig. Ég var duglegur að færa mig og kastaði 4-5 sinnum á hverjum stað og færði mig svo c.a. 10 metra. Ég var að draga inn á hjólinu þegar urriðinn beit á og það var kærkomið að landa honum. Hann tók kelly green nobbler og bjargaði mér frá því að núlla eða svo hélt ég enda bjartsýnin í hópnum ekki mikil miðað við að fimm veiðimenn eftir marga klukkutíma voru ekki búnir að veiða neitt. Þennan dag reyndum við Stóra Fossvatn, Nýrað, Grænavatn og Litlasjó. Kvöldið við Grænavatn og Litlasjó var það flottasta sem ég hef upplifað við Veiðivötn. Við Grænavatn sáum við tunglið rísa milli tinda og sólina setjast andspænis því, spegill á vatninu og ótrúleg kyrrð. Við Litlasjó sáum við vatnið slétt sem spegil, fiska stökkva út um allt, bara utan kastfæris og sumir skellirnir voru greinilega eftir mjög stóra fiska. Tungskinið lýsti upp allt og stjörnubjartur himininn stórglæsilegur í óbyggðunum þar sem auðvelt var að reka augun í gervihnetti á mikilli ferð yfir svæðið. Ógleymanlegt kvöld, hefði verið betra ef við hefðum veitt eitthvað en alveg ferðarinnar virði. Eina markverða þennan dag var að við sáum vin okkar á Subarunum á sama stað í Hermannsvíkinni aftur með flottan fisk. Við kölluðum til hans að við myndum keyra framhjá á hálftíma fresti ef hann vildi ;-) og honum leist vel á það.

EFtir 3 vaktir vorum við þarna með einn eins punda fisk. Andinn í hópnum góður en bjartsýnin á aflabrögðum engin fyrir síðustu vaktina. Menn fóru seint út en stefnan var tekin á Litla Skálavatn þar sem vindur var helst til mikill fyrir stóru vötnin. Ég hélt minni hernaðaráætlun til streitu og kastaði nokkrum sinnum, færði mig og kastaði nokkrum sinnum. Ég var orðinn nokkuð þreyttur á að tapa flugum en þær voru 7 sem ég tapaði í þessum túr. En svo kom að því. Ég setti í vænan fisk. Aftur var ég að draga inn á hjólinu um það bil að færa mig á annan stað. Baráttan var merkilega stutt miðað við stærðina á fiskinum en samt miklu lengri en baráttan við litla fiskinn sem ég var búinn að veiða. Fiskurinn reyndist vera 1,9 kíló og tók Black Ghost. Eftir skamma stund sá ég fisk stökkva 20 metra til vinstri við mig. Ég hugsaði með mér að færa mig þangað en hefði þurft að draga alla línuna inn og labba þangað og kasta og það tæki sinn tíma. Ég ákvað því frekar að kasta eins nælægt staðnum og ég gæti þó það væri að mestu yfir grynningar. Bamm!!! Hann var á og virkaði stærri en sá fyrri. Báðir tóku þeir mjög nálægt landi. Ég var heillengi að landa þessum því alltaf átti hann aðeins meira eftir þegar ég reyndi að háfa hann. En að lokum gaf hann sig og reyndist vera 2,2 kíló. Hann tók gylltan nobbler. Ég hringdi í félaga mína og sagði þeim að koma því ég sá fleiri fiska stökkva og virkuðu þeir stórir. Þeir komu að vörmu spori og stuttu seinna var einn félagi minn búinn að landa einum rúmlega þriggja punda fiski sem tók svartan toby spún. Ég setti svo í einn í viðbót á black ghost. Hann stökk tvisvar og sáum við hann vel. Hann virkaði sjónarmun stærri en sá stærsti sem ég hafði náð (að sjálfsögðu af því að þeir stærstu sleppa alltaf). Í seinna stökkinu náði hann að losa sig en ég barðist við hann í rúma mínútu áður en hann losaði sig. Það var smá svekk en þessir tveir sem komu þarna á undan björguðu ferðinni fyrir mér. Ég gat líka ekki kvartað því af 4 fiskum sem hópurinn náði var ég með þrjá. Þeir eru líka stærstu flugufiskar sem ég hef fengið í Veiðivötnum. Ég fór með tvö markmið í túrinn. Ég ætlaði að sigrast á nýju vatni og gerði það því aldrei hef ég fengið fisk í Stóra Hraunvatni áður og að ná í stærri en 3 punda fisk og ég náði tveimur þannig. Mjög sáttur við túrinn þó veiðieðlið í mér vilji alltaf meiri afla ;-)

Veður
veður Kaldi
Svalt (5°-9°)
Skúrir

Afli

Veiðimaður: Sigurgeir Sigurpálsson

TegundFjöldiKgCmKynSleppt?AgnVeiðistaðurAthugasemd
Urriði10.5 Hængur Nei Kelly Green Nobbler Tanginn í Stóra Hraunvatni
Urriði11.9 Hrygna Nei Black ghost Litla Skálavatn
Urriði12.2 Hængur Nei Gylltur nobbler Litla Skálavatn
Myndir

Iphone4 054
Veiðivötn, 19.08.2...

Viltu deila þessari ferð með öðrum? Sendu þeim póst:

Athugasemdir
Halldór Gunnarsson 22.08.2013 kl. 07:07.
Svona á að gera þetta!
María Petrína Ingólfsdóttir 22.08.2013 kl. 09:00.
Glæsilegt og takk fyrir skemmtilega veiðisögu. Minni á veiðidag fjölsyldunnar á næsta sunnudag,þann 24.ágúst. Kl.10 má byrja að veiða í Hlíðarvatni - Selvogi.
Smári Björn Þorvaldsson 22.08.2013 kl. 12:24.
Flottir fiskar. Það er samt alltaf þannig að það er frekar leiðinlegt að vera sá eini í hópnum sem fær fisk eða lang flesta fiskana. Maður vill einhvernveginn að aðrir í hoópnum fái fisk og veiði vel. Þannig er það allavega hjá mér. Þannig var það hjá mér í síðasta túr í vötnin að ég veiddi langmest og var ég fúlastur yfir því en samt ænægður með aflann minn.
Sigurgeir Sigurpálsson 22.08.2013 kl. 15:06.
Já ég reyndi að deila þessu með því að kalla þá alla á staðinn sem fiskarnir voru að gera. Því miður kom það bara einum á blað en ekki öllum.
Stefán Orri Stefánsson 23.08.2013 kl. 10:05.
Takk fyrir ferðina Sigurgeir, þetta var mjög skemmtilegt þó ég hafi núllað. Það er rétt að vissulega getur verið leiðinlegt að vera sá eini sem kemst á blað - en það er samt skárra en að vera í hinum hópnum! En svona er það bara stundum :)
Sigurgeir Sigurpálsson 23.08.2013 kl. 10:33.
Takk sömuleiðis fyrir ferðina, við mokum þeim inn næst ;-)