Veiðiferð skráð af: Sigurgeir Sigurpálsson

Veiðistaður

Dags:
 04.07.2015 15:00 - 06.07.2015 15:00
Staðsetning:
 Landmannaafréttur - Hálendið
Veiði:
 Silungsveiði
Lýsing

Veiðihundar Betware fóru í sína árlegu ferð. Þetta er lýsing bara frá minni reynslu þannig að ég fer ekki ítarlega yfir hvað aðrir veiddu.

Fyrsti dagurinn var slæmur hjá mér. Ég sá fullt af fiski en ekki vildi hann taka. Beitustrákarnir fengu sæmilega mikið og flotta fiska en aðeins einn flugufiskur kom á land ef ég man rétt. Sá var tekinn í Stóra-Fossvatni á Bomber. Veðrið var æðislegt og flugan svo mikil að það var eins og verið væri að keyra slátturvélar upp allar brekkur. Ég var aðeins í Stóra Skálavatni, Litla skálavatni, Litla Skálavatnspolli en fékk ekki högg.

Dagur tvö byrjaði ekkert vel. Veðrið var ekki eins skemmtilegt en veiðilegt fyrir því. Vindurinn var svona í mesta lagi til að flokkast ennþá undir sæmilegt veður en lægði inn á milli og var ekkert mikið að trufla mig. Mest truflaði það fólk að skýjað var og því kaldara en daginn áður. Lofthiti var samt fínn og líf í vötnunum. Við prófuðum Litlasjó, Nýrað og svo Stóra Skálavatn. Í Stóra Skálavatni var líf en ég setti bara í titti þar og sleppti þeim öllum. Síðan renndum við í Snjóölduvatn og þar iðaði allt af lífi. Bleikjan var út um allt og stundum á í hverju kasti. Bleikjur sem náðu pundinu eða voru tæpar í það voru út um allt og það var gott að koma sér í gang með að landa nokkrum slíkum. Ég tók sjö stykki og hirti 3 af þeim. Hefðum getað veitt miklu fleiri en þetta var ekki ástæðan fyrir því að við komum þangað. Ég setti reyndar í eina mun stærri sem ég missti og hitti félaga daginn eftir sem tók eina sem var um 2 pund þannig að það var spenningur í manni að hitta á eina af stærri gerðinni. En við brunuðum í Litla Breiðavatn og ætluðum að gera stutt stopp. Þar í þriðja kasti setti ég í einn bolta úfff það var rosalegt.

Ég rölti frá bílastæðinu og yfir að hraunklettinum sem er beint á móti því og framhjá honum og framhjá djúpa pyttinum sem er þar fyrir aftan og út á steinagarðinn sem gengur þar út í vatnið. Þar stóð ég á steinum með vatn upp að hnjám og kastaði frekar stutt út. Bara 10-15 metra og strippaði rólega inn. Í þriðja kasti kom þungt högg og allt var stopp. Höfðinginn fann sennilega ekkert fyrir önglingum stingast í sig og hélt bara áfram "like a boss" að synda 3 metra fyrir framan mig að svipast um eftir næsta fórnarlambi. En þá pirrast hann á þessari línu í kjaftinum á honum og gjörsamlega tjúllast og tekur straujið skáhalt með landinu vinstra megin í áttina að stóra gígnum hinum megin í vatninu. Ég sé bara línuna tæmast af hjólinu og er kominn á baklínuna og hann er ekkert að fara að stoppa. Ég verð bara að herða meira á bremsunni og vonast til að hann fari að stoppa því annars myndi ég bara tapa flugu, flotlínu og baklínu á einu bretti. Og þetta hægði á honum og hann stoppaði. Svo byrjaði baráttan við að ná honum til mín. Þetta var óvenjuleg barátta alla vega miðað við mína reynslu. Hann vildi ekkert koma til baka og barðist við mig á fullu. Oft nær maður þeim nokkuð "auðveldlega" og svo strauja þeir aftur út þegar þeir sjá mann og gera það jafnveið 2-3 sinnum. Þessi var ekki þannig og þessi hoppaði aldrei. Hann ætlaði bara að taka þetta á kröftunum. Ég var þegar orðinn aumur í höndinni eftir að hafa kastað allan daginn á móti rokinu en adrenalínið kom til bjargar og ég pældi ekki í því að ég væri að drepast í höndinni. Smá saman náði ég honum nær og nær þar til ég sá hann loksins. Ég hafði komið að vatninu með félaga mínum sem labbaði á annan stað utan kallfæris og sjónfæris þannig að ég var bara einn í þessu. Standandi á grjóti með enga leið upp á bakka nema upp grjótgarðinn og þó mér tækist það þá voru engir staðir til að stranda höfðingjanum á. Háfurinn minn sem ég var eitthvað að væflast með er lítill bleikjuháfur og þessi var of stór í hann. Ég gat hins vegar stigið af steininum og komist í betra jafnvægi á sandbotningum með vatn upp að mitti og gerði það. Ég þreytti höfðingjann vel og lengi og hann tók stuttar litlar rokur frá mér en ekkert svona út eins og í byrjun. Hann var alveg búinn á því og ég líka. En þetta var fyrsti alvöru fiskurinn á nýju stöngina mína og fyrsti alvöru fiskurinn sem ég veiði á flugu sem ég hnýti sjálfur og fyrsti alvöru fiskurinn minn í þessari ferð þannig að ég ætlaði sko aldeilis ekki að missa þennan. Fyrir utan að enginn myndi trúa mér að ég hefði sett í svona fisk þarna þar sem enginn var til að sjá lætin. En svo kom að því að ég ætlaði að reyna að háfa hann í háfinn minn. Hann varð að vera alveg búinn á því þar sem hann gæti sprikklað svo auðveldlega úr svona litlum háf. Fyrsta tilraun til að háfa hann mistókst algerlega því hann sá til mín og tók eina málamyndaroku í burtu en orkan var búin í höfðingjanum og ég dró hann aftur til mín og gerði aðra tilraun. Hún mistókst líka því hann var of stór í háfinn og það þýddi ekki að taka hann hausinn fyrst eins og maður gerir við bleikjurnar. Ég náði að snúa honum og tók sporðinn fyrst og skóflaði honum í háfinn. Hann lá þar alveg kyrr og búinn á því. Nú mátti hann ekki sprikkla því þá myndi flugan örugglega fara úr honum og hann synda í dýpið og ég með fallega sögu en engin vitni og enga sönnun. Þá klifraði ég upp á steinagarðinn og var að sjálfsögðu nærri búinn að detta en náði jafnvægi og fleygði ekki fisknum út í vatnið við það að ná jafnvæginu. Svo komst ég í land og rotaði höfðingjann sem fer í reyk og verður æðislegur á brauð í sumar :-) Korteri seinna mætti félagi minn og missti nærri andlitið :-) Ég mældi hann með málbandi 67 cm og pundarinn minn sagði 3.eitthvað kíló sem mér sýndist vera mun nær 3 kílóum en 3.5 þannig að ég giskaði á 3.1 kíló. Hins vegar við aðgerðarborðið um kvöldið þá vigtaði ég hann blóðgaðan 3.3 kíló. Við reyndum þennan stað í góðan hálftíma á eftir en ekkert líf sáum við eftir þetta. Við enduðum vaktina í Litla Skálavatnspollinum þar sem smá líf var en ekkert kom á land.

Þriðja og síðasta daginn þá fórum við í Litlasjó og það var algjört partý. Eins punda urriðar á í hverju kasti. Ég byrjaði á að sleppa þeim öllum þar til karlar komu þarna að og sögðu að það ætti að hirða allt. Við fórum þá að gera það en komumst svo að því að ef hægt er þá er æskilegt að sleppa þeim því eftir að þeir ná 1 punda stærð þá fara þeir loksins að stækka hratt. Leiðindarmisskilningur sem þarf að leiðrétta áður en allir halda að það eigi að drepa allt sem veiðist. En inn á milli voru stórir fiskar. Ég setti í einn c.a. 3 punda en missti hann. En tók einn 1.5 pund. Félagar mínir náðu 4.5 punda og 4 punda fiskum á spún og maðk en við á flugunum náðum bara í 1-1.5 punda fiska. Við sáum líf út um allt og þetta var algjör veisla. Við fórum því öll sátt úr veiðivötnum en vorum óþarflega lengi á aðgerðarborðinu með litla fiska sem hefðu átt að fá líf.

p.s. í öllum þessum mokfiskeríum sem við lentum í settum við í álíka mikið af fiskum og misstum. Þeir voru að taka svakalega grant.

Veður
veður Gola
Hlýtt (10°-14°)
Hálfskýjað

Afli

Veiðimaður: Sigurgeir Sigurpálsson

TegundFjöldiKgCmKynSleppt?AgnVeiðistaðurAthugasemd
Urriði10.3 Hvítur Nobbler Stóra Skálavatn
Bleikja10.3 Black ghost Stóra Skálavatn
Bleikja10.3 Peter Ross Stóra Skálavatn votfluga
Bleikja30.5 Nei Peter Ross Snjóölduvatn votfluga
Bleikja40.4 Peter Ross Snjóölduvatn votfluga
Urriði13.367.0 Nei Kelly Green Nobbler Litla Breiðavatn hnýtti hann sjálfur
Urriði90.4 Kelly Green Nobbler Litlisjór Hraunið
Urriði100.5 Nei Kelly Green Nobbler Litlisjór Hraunið
Urriði10.75 Nei Kelly Green Nobbler Litlisjór Hraunið
Myndir

Img 2864
Veiðivötn, 04.07.2...

Viltu deila þessari ferð með öðrum? Sendu þeim póst:

Athugasemdir
Halldór Gunnarsson 07.07.2015 kl. 12:31.
... þetta hefur verið fjör og til lukku með þann stóra! :)
Sigurgeir Sigurpálsson 07.07.2015 kl. 12:45.
Takk takk :-) eini stóri sem ég fékk en það er nóg til að redda ferðinni ;-)
Lárus Óskar Lárusson 07.07.2015 kl. 23:41.
Flottur..... Alltaf gaman að veiða í sleppitjörnum heheheheh
Sigurður Kristjánsson 11.07.2015 kl. 22:12.
gríðarlega fallegur urriði þarna. Á enn eftir að ná fiski uppúr Litla-Breiðavatni en kannski gerist það í næstu viku. En hvar var svona mikið bleikjufjör í Snjóöldu?
Sigurgeir Sigurpálsson 12.07.2015 kl. 00:09.
Það var allt vitlaust í Mjóddinni en svo frétti ég um kvöldið að sama sagan var á Bátseyri nema mun stærri bleikjur. En þetta fer ekki framhjá þér, ef það er ekki of hvasst og þú á háum stað og sérð yfir vatnið þá særðu lætin í yfirborðinu úr talsverðri fjarlægð.